Ferill 576. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 576 . mál.


Ed.

1166. Frumvarp til laga



um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 8 18. apríl 1986.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989-90.)



1. gr.

    1. mgr. 89. gr. orðist svo:
    Sveitarfélag getur veitt Lánasjóði sveitarfélaga tryggingar í tekjum sínum vegna lána sem það tekur hjá sjóðnum. Eigi má sveitarfélag veðsetja öðrum tekjur sínar né heldur fasteignir sem nauðsynlegar eru til þess að sveitarfélagið geti rækt lögskyld verkefni sín. Aðrar eignir getur sveitarfélag veðsett og heildareignir sveitarfélags standa til tryggingar skuldbindingum þess. Félagsmálaráðherra getur sett í reglugerð nánari ákvæði um tryggingar sjóðsins í tekjum sveitarfélaga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í áliti nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði 25. júlí 1989 til að kanna fjárhagsstöðu verst stöddu sveitarfélaganna og gera tillögur til úrbóta er m.a. lagt til að Lánasjóður sveitarfélaga breyti a.m.k. um sinn nokkuð áherslum sínum í sambandi við útlán og leggi meiri áherslu á að veita sveitarfélögum lán til greiðslu óhagstæðra lána sökum þeirrar erfiðu fjárhagsstöðu sem mörg sveitarfélög fást nú við. Í bréfi félagsmálaráðherra til Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 21. mars 1990, sem stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga barst jafnframt afrit af, er áhersla lögð á að tillögur nefndarinnar komi til framkvæmda. Sérstök áhersla var lögð á þátt Lánasjóðs sveitarfélaga varðandi skuldbreytingar skammtímalána sveitarfélaga.
    Á fulltrúaráðsfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga dagana 22. og 23. mars 1990 voru fjárhagsmál sveitarfélaga m.a. til umræðu. Var á fundinum samþykkt svofelld ályktun:
        „45. fundur fulltrúaráðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, haldinn í Reykjavík 22. og 23. mars 1990, beinir þeim tilmælum til stjórnar Lánasjóðs sveitarfélaga að hún leggi aukna áherslu á lánveitingar til skuldbreytinga á skammtímalánum sveitarfélaga sem í fjárhagserfiðleikum eiga, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga um Lánasjóð sveitarfélaga, nr. 35/1966.“
    Stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga fjallaði um málið á fundi 27. apríl sl.
    Samkvæmt 4. tölul. 9. gr. laga nr. 35/1966, um Lánasjóð sveitarfélaga, er eitt af skilyrðum lánveitinga úr sjóðnum að fjárhagur sveitarfélags sé að dómi sjóðstjórnar svo traustur að telja megi vísa greiðslu afborgunar og vaxta á umsömdum tíma. Ella verður að setja tryggingu fyrir láninu sem sjóðstjórn metur gilda. Á grundvelli 13. gr. laga sjóðsins getur félagsmálaráðherra greitt vanskil af lánum við sjóðinn af framlögum hlutaðeigandi sveitarfélaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eftir því sem til vinnst. Vegna breytinga sem urðu með lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 91/1989, er trygging lánasjóðsins í framlögum ekki lengur sú sama og var samkvæmt eldri lögum. Sum sveitarfélög fá litlar sem engar greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og önnur allmikið undir því sem nemur greiðslubyrði þeirra á þegar fengnum lánum við sjóðinn. Tryggingar sjóðsins á grundvelli 13. gr. hafa því rýrnað verulega. Að mati stjórnar lánasjóðsins er fjárhagur margra sveitarfélaga ekki nægilega tryggur til þess að verjandi sé út frá hagsmunum sjóðsins að veita lán framvegis án fullnægjandi trygginga, bæði til skuldbreytinga og nýframkvæmda. Um lán úr sjóðnum hafa sótt 50 sveitarfélög á þessu ári, þar af 21 vegna skuldbreytinga. Ráðstöfunarfé sjóðsins á þessu ári er um 400 milljónir króna en beiðnir um skuldbreytingarlán nema samtals 343 milljónum króna.
    Samkvæmt 89. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, mega sveitarfélög ekki veðsetja tekjur sínar. Til þess að unnt sé að verða við óskum um skuldbreytingarlán sveitarfélaga og til þess að tryggja hag sjóðsins hefur stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga með bréfi dags. 27. apríl sl. farið þess á leit við félagsmálaráðherra að sú breyting verði gerð á 89. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, sem lögð er til í frumvarpi þessu. Með breytingunni getur Lánasjóður sveitarfélaga fengið tryggingu í staðgreiðslufé sveitarfélaga vegna greiðslna afborgana, verðbóta og vaxta af lánum sjóðsins.
Slík heimild yrði þó aðeins notuð að tryggingar í framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga duga ekki. Með breytingunni vinnst tvennt. Annars vegar er staða sjóðsins hvað tryggingar snertir styrkt frá því sem nú er. Hins vegar er stjórn sjóðsins gert kleift að aðstoða sveitarfélögin í auknum mælli með skuldbreytingum skammtímalána. Ef koma á til skuldbreytingarlána af ráðstöfunarfé Lánasjóðs sveitarfélaga fyrir þetta ár er nauðsynlegt að breyta nefndri 89. gr. sveitarstjórnarlaganna. Úthlutun lána úr sjóðnum fer fram í maímánuði. Þess vegna er frumvarp þetta flutt nú.
    Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga tók þetta mál fyrir á fundi sínum 27. apríl sl. og samþykkti einróma að leggja til þá breytingu sem hér að framan er rakin.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Breytingin felur í sér að sveitarfélag fær heimild til þess að veita Lánasjóði sveitarfélaga tryggingar í tekjum sínum vegna lána sem það tekur hjá sjóðnum. Lánasjóður sveitarfélaga hefur til þessa haft sem tryggingu framlög sveitarfélaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en þau teljast til tekna sveitarfélaga. Breytingin felur í sér útvíkkun á heimild sem nú gildir og gefur jafnframt möguleika á tryggingu í staðgreiðslufé sveitarfélaga. Er þessi breyting nauðsynleg vegna hagsmuna Lánasjóðs sveitarfélaga og til þess að einstök sveitarfélög eigi þess kost framvegis að fá lán úr sjóðnum, bæði til skuldbreytinga og nýframkvæmda. Vakin er athygli á að Lánasjóður sveitarfélaga er sameiginlegur sjóður sveitarfélaga og lánar eingöngu til sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra. Það eru því sameiginlegir hagsmunir þeirra að hagur sjóðsins sé ætíð sem bestur. Um rýmkun gagnvart öðrum er hins vegar alls ekki að ræða og skýrt tekið fram að sveitarfélagi sé óheimilt að veita öðrum sambærilega tryggingu í tekjum sínum. Í niðurlagi 1. mgr. er bætt inn í greinina að félagsmálaráðherra geti sett með reglugerð nánari ákvæði um tryggingar Lánasjóðs sveitarfélaga í tekjum sveitarfélaga. Má hugsa sér að í slíkum reglum yrði t.d. tekið fram að trygging í staðgreiðslufé sveitarfélags megi aldrei fara upp fyrir tiltekið hlutfall af heildartekjum sveitarfélagsins. Ætla verður að ráðherra hafi samráð við stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga um setningu reglugerðar þó að það sé ekki beinlínis tekið fram.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.